R e g l u r
um afnot og hagnýtingu lóðar
við Skipholt 43-47 í Reykjavík
Húsfélagið Skipholti 43-47 hefur markað sér þá stefnu að vera virðulegt fjölbýlishús í miðborginni. Reglur þessar eru meðal þeirra úrræða sem stjórn húsfélagsins hefur til að koma þeirri stefnumörkun í framkvæmd. Í húsinu eru 25 íbúðir og 34 bílastæði og því nauðsynlegt að afmarka stæðin og rétt til notkunar þeirra.
I. Um lóðina og reglur þessar.
1. gr.
Ofangreind lóð er sameiginleg og óskipt og fer um eignarhlutdeild í henni eftir fyrirliggjandi þinglýstri eignaskiptayfirlýsingu frá 27. október 1997.
Lóðin er sameiginleg og óskipt fyrir húsið að Skipholti 43-47 ásamt níu bílskúrum sem standa við horn Háaleitisbrautar og Skipholts sbr. uppdrátt að lóð í þinglýstum lóðarleigusamningi dags. 31. desember 1962.
2. gr.
Reglur þessar geyma fyrimæli um afnot og hagnýtingu lóðarinnar og um réttindi og skyldur eigenda og samskipti þeirra í því efni og um skiptingu afnota af bifreiðastæðum.
Reglurnar eru settar á grundvelli laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús og byggjast þær á fyrirmælum þeirra og jafnræðis- og sanngirnissjónarmiðum þannig að bæði eru virtir hagsmunir þeirra sem stærri eignarhluta eiga í lóðinni og þeirra sem minni hluti eiga.
II. Almennar meginreglur um lóð.
3. gr.
Sérhverjum eiganda og afnotahafa ber skylda til þess að taka sanngjarnt og eðlilegt tillit til annarra eigenda og afnotahafa við hagnýtingu sína og umgengni um lóðina svo og til að fara í hvívetna eftir reglum og ákvörðunum húsfélagsins þar að lútandi.
4. gr.
Eigendur eru skuldbundnir hver gagnvart öðrum og gagnvart húsfélaginu og einnig gagnvart borgaryfirvöldum til að ganga vel og þrifalega um lóðina og halda henni hreinni og snyrtilegri og haga hagnýtingu sinni þannig að sem minnst truflun og röskun verði á hagsmunum og rétti annarra eigenda.
5. gr.
Ekkert sem er til lýta og spillir ásýnd, útliti og heildarmynd lóðar og húss og aðkomu að því eða er til vansa og trafala, má að staðaldri vera á lóð hússins.
6. gr.
Eigendur skulu sýna hver öðrum tillitssemi og eðlilegt umburðarlyndi og skilning á þörfum hvers annars og veita hver öðrum sanngjarnt svigrúm til athafna og afnota þegar nauðsyn kallar á þótt það kunni að valda stuttri tímabundinni röskun og ónæði sem þeim væri ella óskylt að þola.
Þegar þannig stendur á skulu höfð samráð við stjórnina og þann eða þá sem ónæðið bitnar á og kappkosta að truflunin verði sem allra minnst.
7. gr.
Átroðningur og áreiti eiganda gagnvart öðrum eigendum, afnotahöfum og gestum, við og vegna hagnýtingu lóðarinnar er stranglega bannaður.
Telst slík háttsemi alvarlegt brot brot á reglum þessum og fyrirmælum fjöleignarhúsalaga og ef um gróf eða ítrekuð brot er að tefla, getur það leitt til þess að úrræðum 55. gr. fjöleignarhúsalaga verði beitt gagnvart hinum brotlega.
Stjórnin skal bæði að eigin frumkvæði og samkvæmt ábendingum og tilmælum grípa inn í deilur svo fljótt sem auðið er og kosta kapps um að sætta deiluaðila á grundvelli reglna þessara og fyrirmæla fjöleignarhúsalöggjafarinnar.
8. gr.
Ekki má hafa neitt það á lóðinni, hvorki í lengri eða skemmri tíma, sem valdið getur truflun á umferð við húsið og torveldar eðlilega aðkomu að eignarhlutum annarra eigenda.
9. gr.
Stjórn húsfélagsins lætur framkvæma og/eða gefur fyrirmæli til eigenda og afnotahafa um hreinsun og þrif á lóðinni og eftir atvikum snjóhreinsun hennar.
Skal hver eigandi sjá um og annast venjulega tiltekt og þrif á lóðarhlutanum sem fellur undir einkahagnýtingarrétt hans, sbr. 14. gr.
III. Um hagnýtingu bílastæða.
10. gr.
Óheimilt er að nota bílastæði að staðaldri til að geyma þar annað en skráð ökutæki sem eru í reglulegri notkun. Óheimilt er að nýta bílastæðin til langtímageymslu. Langtímageymsla telst vera óhreyfður bíll í fjórar vikur samfleytt og skiptir þá ekki máli hvort farartækið sé fært til málamynda og því lagt aftur til geymslu að því loknu. Bílar skulu standa á merktum bílastæðum og rúmast innan skilgreindra stæða.
Þannig er óheimilt að geyma að staðaldri óskráða bíla, vinnuvélar, tæki, bílhluta, bílhræ, aðra hluti og lausamuni, heila eða ónýta, og hverskyns dót og drasl, sem veldur sjónmengun, óþrifnaði, slysahættu og ama fyrir aðra eigendur, afnotahafa og umhverfið.
Óheimilt er að láta bíla og aðrar vélar ganga í lausagangi lengur en brýnasta nauðsyn krefur.
Er stjórninni heimilt að láta fjarlægja bíla, muni og hluti sem um getur í þessari grein á kostnað viðkomandi eiganda enda hafi hann ekki sinnt ábendingu og áskorun um að gera það sjálfur innan 10 daga frá áskorun. Ef ekki næst í eiganda skal festa áskorun á bílinn sjálfan og telst það fullnægjandi birting áskorunar.
11. gr.
Óheimilt er að leggja bílum við innkeyrslu að húsinu og við austurhlið hússins sem er framhlið þess. Heimilt er að leggja í bílastæðum við suðurgafl hússin.
Merkingar eru við innkeyrslu að húsinu og framhlið þess um að bifreiðastöður séu bannaðar og að bílar sem lagt sé við framhlið hússins og innkeyrslu þess verði dregnir burt.
Stjórn húsfélagsins skal hlutast til um að láta draga bíla sem þar er lagt í trássi við
1. mgr. án frekari viðvörunar en felast í fyrrgreindum skiltum. Láti stjórn húsfélagsins draga bíla í samræmi við framangreint er slíkt gert á kostnað eiganda viðkomandi bíls.
12. gr.
Bílastæði við húsið eru 34 að tölu en íbúðir í húsinu eru 25. Fjöldi bílastæða nema einu stæði á íbúð auk níu gesta- og/eða skammtímastæða. Bílastæðin eru sameiginleg og í óskiptri eigu allra eigenda séreignarhluta í húsinu sbr. 1. mgr. 33. gr. fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994. Í samræmi við framangreint hefur hver og einn eigandi ekki rétt til að helga sér afnot af bílastæðum.
Eigendur hvers séreignarhluta hafa rétt til að nota að jafnaði eitt bílastæði til að leggja þar skráðum bifreiðum sínum. Í því felst, m.a., að eigendur herbergja í kjöllurum stigahúsa nr. 45 og 47 skulu, eftir atvikum, beina því til leigutaka slíkra herbergja að herbergjunum fylgi ekki afnotaréttur af bílastæðum.
IV. Um ráðstöfun og afnot bílskúra og einkaafnotastæða fyrir framan þá.
13. gr.
Bílskúrar sem standa sjálfstæðir á lóð hússins, skulu jafnan fylgja ákveðnum séreignarhlutum í húsinu og er sérstök sala þeirra eða framsal bílskúrsréttinda til annarra en eigenda í húsinu óheimil.
Hyggist eigandi leigja bílskúr sinn skulu aðrir eigendur eiga forleigurétt. Vilji fleiri en einn nýta forleiguréttinn ræður eigandi hverjum þeirra hann leigir.
Eiganda er jafnframt óheimilt að undanskilja bílskúr eða bílskúrsréttindi við sölu á eignarhluta sínum, nema hann eigi þar annan eignarhluta. Sama gildir um aðra séreignarhluta.
Framangreindar reglur um framsal eignaréttar, afnotaréttar og leigu bílskúra eru í samræmi við ákvæði 22. gr. fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994
14. gr.
Bílastæði fyrir framan hvern og einn bílskúr er einkaafnotastæði viðkomandi bílskúrseiganda. Öðrum er óheimilt að nota þau stæði.
Hagnýting eigenda bílskúra á einkaafnotastæðum sínum skal lúta sömu takmörkum og hagnýting annarra bílastæða skv. 10. gr.
Eigendur bílskúra sem geyma að staðaldri fleiri en einn bíl við húsið skulu leitast við að nota einkaafnotastæði sitt fyrir framan bílskúr sinn til að leggja þar aukabifreið sinni.
15. gr.
Óheimilt er að nota bílskúra til annars en hefðbundinna afnota bílskúra við íbúðarhús. Til dæmis er óheimilt að stunda atvinnurekstur í bílskúrum.
V. Annað.
16. gr.
Eigendum er skylt að kynna leigjendum sínum og öðrum sem dvelja í húsinu á þeirra vegum reglur þessar og skal eintak þeirra vera aðgengilegt í hverju stigahúsi.
17. gr.
Reglur þessar eru settar með heimild í 74. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús og voru samþykktar og settar á fundi húsfélagsins hinn 5. febrúar 2020. Nýjum eigendum og afnotahöfum til upplýsingar og eftirbreytni skal seljandi kynna þær væntanlegum kaupendum.